Um leiðangurinn

Þetta er áttunda árið sem Hafrannsóknastofnunin tekur þátt í alþjóðlegum rannsóknarleiðangri á uppsjávarlífríki norðaustur Atlantshafs að sumarlagi (opinbert heiti: „International Summer Survey in Nordic Seas“). Alls taka fimm skip þátt í leiðangrinum og þau koma frá Noregi, Færeyjum og Grænlandi auk Íslands.

Markmið leiðangursins er að rannsaka alla hlekkina í uppsjávarvistkerfinu frá frumframleiðni sjávar til hvala. Skipulag leiðangursins er að við siglum eftir leiðarlínum og söfnum sýnum á stöðvum sem hafa fyrirfram ákveðnar staðsetningar. Á leiðarlínum er bergmálstækni notuð til að mæla endurvarp frá kolmunna og síld, hvalir eru skráðir, síritar mæla hitastig og frumframleiðni í yfirborði sjávar, og ljósmagn við yfirborð. Á stöðvum þá er mikið um að vera þar sem við söfnum dýrasvifi, fiskilirfum og fiskiseiðum, togum í yfirborði til að meta magn makríls, mælum hitastig og seltu frá yfirborði niður á 500m dýpi, og söfnum vatnssýnum fyrir mælingar á blaðgrænu og næringarefnum.

Lagt var að stað úr höfn í Reykjavík að kvöldi mánudagsins 3. júlí 2017 og siglt norðvestur. Framundan eru 30 dagar á sjó þar sem teknar verða 80 togstöðvar og sigldar um 6000 sjómílur.

Hægt er að fylgjast með ferðum RS Árna Friðrikssonar  http://www.hafro.is/skip/skip.html

 

Advertisements