Ævar vélstjóri útskýrir hvernig þeir halda skipinu gangandi

Um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, kl: 14:05, 14.júlí, 2017. Staðsetning 67.32ºN og 14.23ºV.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson “nýji” var smíðaður árið 1999 í Chile. Það er spurning hvort það sé ekki kominn tími til að hætta að nota “nýji”. Hvað sem því líður þá nota vélstjóranir meirihluta af sínum vinnudegi í viðhald til að halda skipinu gangandi. Ævar er einn af þremur vélstjórunum um borð. Hann leyfði mér að fylgjast með venjulegum vinnudegi hjá honum fyrr í vikunni.

Vélstjórarnir nota bæði gamlar aðferðir og nýjar til að halda utan um viðhaldið. Það er forrit sem minnir þá á hvers konar viðhald skuli framkvæmt á degi hverjum og síðan er handskráð í véladagbókina hvað er gert.

Ævar að skoða hvers konar viðhald er á dagskrá hjá honum i dag.

Ævar hefur fallega handskrift.

Ég byrjaði daginn með Ævari á því að setjast í yfirvélstjórastólinn og hlusta á fyrirlestur um viðhald rannsóknaskipa það eru alls konar vélar, togspil, mælar af öllum mögulegum stærðum og gerðum komu við sögu. Merkilegast fannst mér að það verður til alltof mikið rafmagn um borð og því þarf að eyða í þar til gerðum skáp. Ef maður fiktar í þessum skáp þá er þetta ævintýri sem lifið er búið nema Ævar hafi verið að ýka. Ég er ekki viss.  Alla vega þorði ég ekki að sleppa takinu á handriðinu til að taka mynd af þessum rafmagnaða skáp því það gæti komið stór alda og hent mér á skápinn.

Útsýnið úr yfirvélstjórastólnum.

Ég sat í yfirvélstjórastólnum í nokkra stund og inna seilingar voru margir óspennandi mælar og síðan all konar takkar og handföng sem kölluðu á mig að prófa hvað mundi gerast ef ég snerti eitthvað. En Ævar þekkir mig og önnur hver setning í vélstjórafyrirlestrinum var: “Ekki snerta neitt” – “ÉG sagði: ekki snerta neitt”.

Viðhaldsforritið minnir vélstjórana á hvað þarf að smyrja í skipinu á hverjum degi nema á sunnudögum. Sunnudagar eru formúla 1 dagar. Í dag var komin tími á að smyrja togspilin tvö. Togspilin geyma taugarnar sem eru tengdar í trollið. Taugarnar eru um 250 faðmar á lengd og togátakið er um 23 tonn þegar verið er að toga og um 35 tonn þegar híft er.

Ævar að smyrja. Togtaugin er sýnileg fyrir ofan hann.

Ævar að smyrja togspilið bakborðsmegin. Þetta er ekki staður sem maður heimsækir í sparifötunum. Ég var í öryggisvinnuskóm og með hjálm.

Þegar búið var að smyrja togspilin fórum við í stýrisvélarhúsið. Stýrisvélarhúsið er þetta gráa hringlaga apparat beint fyrir framan Ævar. Innan í húsinu er stýrið á skipinu. Ég hafði ímyndað mér að þetta liti allt örðuvísi út. Þá var fyrstu vélstjóraviðhaldseftirmiðdagsstundinni með Ævari lokið.

Ævar og stýrisvélhúsið.

 

Advertisements